Um okkur

Með þér í hverju skrefi

Dagarnir í lífi okkar geta verið bæði rólegir og erilsamir, en í dagsins amstri tökum við oft ekki eftir litlum hlutum sem hafa mikil áhrif á það hver við erum og hvernig okkur líður. Fötin sem við klæðumst spila þar stóran þátt. 

Þegar þú ferð í föt frá Mfitness viljum við að þér líði vel. Orðatiltækið „þú ert það sem þú klæðist“ er ekki gripið úr lausu lofti og þess vegna leggjum við mjög mikinn metnað í vörurnar okkar.

Við viljum að þessi metnaður skili sér til þín og sé með þér í hverju skrefi. Við sníðum fötin til að veita gott aðhald og gæðaprófum allt efni áður en við veljum að nota það. Þannig átt þú að geta gengið að því vísu að njóta sömu gæða aftur og aftur.

Við viljum að þú getir notað vörurnar okkar hvar og hvenær sem er, þær eiga að veita þér sjálfsöryggi og hjálpa þér að láta þína drauma rætast.

Um Mfitness

Mfitness var stofnað á Íslandi árið 2017, af Maríu Lenu Heiðarsdóttur Olsen, með það að leiðarljósi að bjóða upp á íþróttafatnað sem hentar öllum. Vinsældir Mfitness hafa farið sífellt vaxandi frá upphafi og hefur fyrirtækið vaxið hratt og örugglega á undanförnum árum. 

Góðar viðtökur Íslendinga hafa gert okkur kleift að margfalda úrvalið á sama tíma. Í fyrstu voru aðeins tvær flíkur á boðstólum, einn toppur og einar buxur, en nú bjóðum við upp á mikið úrval af vörum og fatnaði í öllum stærðum og gerðum.

Saga Mfitness

María Lena ólst upp á Egilsstöðum og sem barn tók hún virkan þátt í þeim íþróttum sem þar var hægt að stunda. Síðar hóf hún að keppa í fitness og lauk námi sem einkaþjálfari, ásamt því að starfa í tískuvöruverslun móður sinnar á Egilsstöðum. 

Í störfum sínum komst María að því að á Íslandi skorti íþróttaföt af meiri gæðum og þar sem sniðin hentuðu betur vaxtarlagi íslenskra kvenna. Þannig má segja að hugmyndin að Mfitness hafi orðið til á krossgötum tveggja áhugamála; íþróttum og tísku.

María, sem þá var einstæð móðir, vildi ekki bíða eftir að aðrir bættu úr þessu og ákvað að láta slag standa. Að loknu löngu ferli við hönnun nýs fatnaðar og eftir að hafa gengið úr skugga um gæðin þá lagði hún allt sparifé sitt undir við fyrstu pöntunina.

Í ljós kom að María hafði rétt fyrir sér. Þessar vörur hafði skort á Íslandi og vel var tekið við þeim strax í upphafi. 

Viðtökurnar kölluðu á mikla vinnu og sá María um að selja allt í gegnum Facebook-skilaboð, handfæra inn allar sendingar, taka á móti millifærslum og passa upp á að alltaf væri nóg til á lagernum – sem eftir nokkra mánuði var búinn að leggja undir sig alla íbúðina, geymsluna og bílskúr foreldra hennar.

Síðar meir opnaði María vefverslun og um leið varð mun auðveldara að selja vörur og koma þeim til viðskiptavina. Salan jókst og fyrirtækið flutti til Reykjavíkur þar sem 60 fermetra iðnaðarhúsnæði var leigt undir starfsemina.

Aðeins átta mánuðum síðar var húsnæðið orðið of lítið og þá var 205 fermetra húsnæði tekið á leigu. Stúkað var af 40 fermetra svæði undir litla verslun, fyrstu verslun Mfitness, sem opnaði dyr sínar 1. september 2018.

Viðtökurnar létu ekki á sér standa. Lagerrýmið varð aftur of lítill á örfáum mánuðum og allt var gert til að drýgja plássið, þar sem meðal annars var sett upp milliloft og aðrir 205 fermetrar teknir á leigu.

Maríu varð ljóst að fyrirtækið væri í slíkum vexti að finna þyrfti varanlegt framtíðarhúsnæði.

Haustið 2021 festi M fitness því kaup á Stórhöfða 15 í Reykjavík og í kjölfarið var húsnæðið gert fokhelt og innréttað að nýju. Nú hýsir það meðal annars lager, skrifstofur og stúdíó, auk stórrar og glæsilegrar verslunar þar sem við tökum vel á móti öllum.

Þegar búið var að koma fyrirtækinu vel fyrir í Reykjavík var strax byrjað að skoða möguleika á að opna verslun út á landi. Akureyri varð fyrir valinu og haustið 2023 var opnuð stórglæsileg 250 fermetra verslun að Tryggvabraut 5.